Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 574/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 574/2023

Miðvikudaginn 17. janúar 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 27. nóvember 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. ágúst 2023 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2022.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2022 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 295.413 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. ágúst 2023. Með tölvupósti kæranda 8. september 2023 andmælti kærandi niðurstöðu endurreikningsins sem Tryggingastofnun ríkisins svaraði með bréfi, dags. 11. september 2023. Kærandi andmælti niðurstöðunni aftur með tölvupóstum 12. september og 28. nóvember 2023 sem Tryggingastofnun ríkisins svaraði með tölvupósti 17. október 2023 og bréfi, dags. 28. nóvember 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. nóvember 2023. Með bréfi, dags. 29. nóvember 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 12. desember 2023, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. desember 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru segir að þess sé krafist að hluti kröfu Tryggingarstofnunar ríkisins um endurgreiðslu ellilífeyris, sbr. bréf, dags. 28. ágúst 2023, verði afturkallaður. Sá hluti sé byggður á því að svonefndur starfsstyrkur frá B að upphæð kr. 472.428 hafi verið flokkaður sem „aðrar tekjur“. Kærandi telji það hafið yfir skynsamlegan vafa að um atvinnutekjur sé að ræða.

Í kærðri ákvörðun hafi Tryggingastofnun tilkynnt kæranda um skuld að upphæð 295.413 kr. Kærandi fallist á réttmæti hluta þessarar kröfu sem hafi myndast vegna 590.954 kr. lífeyrisgreiðslna frá C. Afgangurinn hafi verið reiknaður út frá 472.428 kr., greiðslu sem kærandi hafi fengið B. Að mati kæranda sé ótvírætt um að ræða atvinnutekjur og séu þær langt undir því hámarki atvinnutekna sem leyfilegt sé að hafa árlega án þess að til skerðinga komi. Kærandi hafi ekki haft aðrar tekjur af því tagi á árinu. Tryggingastofnun líti svo á að þessar greiðslur beri að flokka sem aðrar tekjur.

Kærandi hafi andmælt þessari túlkun með tölvupósti til Tryggingastofnunar 8. september 2023 og hafi honum borist afar óljóst svar 11. september 2023. Daginn eftir hafi kærandi óskað eftir skýrara svari en engin svör hafi borist og hafi hann því ítrekað fyrri beiðni með tölvupóst 12. október 2023. Nokkuð skilmerkilegt svar hafi loks borist 17. október 2023. Þar hafi ákvörðunin verið rökstudd. Af sérstökum ástæðum hafi kærandi ekki komist til að setja fram gagnrök fyrr en 3. nóvember 2023 og hafi þeim ekki enn verið svarað. Þann 20. nóvember 2023 hafi kæranda borist póstur frá lögfræðingi Tryggingastofnunar þar sem fram komi að krafa hans sé enn í skoðun. Kærandi hafi skilið svarið þannig að ekki væri óhugsandi að stofnunin myndi afturkalla kröfu sína án frekari aðgerða af hans hálfu. Úr því sem komið sé virðist ólíklegt að það gerist áður en fresturinn til að kæra útreikninginn renni út. Kærandi hafi því kært ákvörðunina til að vera ekki búinn að fyrirgera rétti sínum til að fá úrskurð nefndarinnar, ef hann reynist síðan vera ósammála útkomu hinnar nýju athugunar stofnunarinnar.

Nánari skýring á sjónarmiðum kæranda séu þau að hann hafi fengið tvær greiðslur frá B á árinu 2022, annars vegar ferðastyrk og hins vegar svokallaðan starfsstyrk. Ferðastyrkurinn skipti litlu máli hér þar sem að Skatturinn hafi samþykkt fullan frádrátt vegna kostnaðarins við ferðina. Reglur B um starfsstyrki megi finna á heimasíðu félagsins, […] [GS1]Um samkeppnissjóð sé að ræða. Styrkirnir séu veittir á grundvelli verklýsingar og skilagrein fyrir hinu unna verki þurfi síðan að berast B innan árs. Þótt þessar greiðslur séu nefndar styrkir, séu þær í öllum grundvallaratriðum sambærilegar við laun úr Starfslaunasjóði sjálfstætt starfandi fræðirithöfunda (í umsjá Rannís) og listamannalaun. Kærandi hafi lengi haft sjálfstæð fræðistörf að aðalatvinnu.

Tryggingastofnun líti svo á að starfsstyrkir B falli undir 2. tölulið A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og lendi þar með utan þeirrar skilgreiningar sem sett sé fram á atvinnutekjum í 9. tölulið 2. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Að mati kæranda virðist þeir eigi best heima undið B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, enda sé hér um tekjur af sjálfstæðri atvinnustarfsemi að ræða.

Orðalag 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt sé nokkuð ljóst. Upptalning þriggja hugtaka í upphafi mynda nokkurs konar yfirskrift töluliðarins: ,,Tryggingabætur, meðlög og styrkir.“ Það gefi strax vísbendingu um, að með orðinu, „styrkir“ sé hér átt við sambærilegar greiðslur við tryggingabætur og meðlög. Þau dæmi sem séu nefnd um greiðslur í texta töluliðarins séu einmitt af þessu taginu. Samanburður við 1. tölul. A- og B-lið 7. gr. laganna leiði í ljós svart á hvítu að ekki standist að líta svo að á að átt sé við hvers konar styrki. Í 1. tölul. A-liðar sé talað um að þar eigi ökutækjastyrkir heima en í B-lið sé talað með sama hætti um atvinnurekstrarstyrki.

Tryggingastofnun hafi vísað til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 95/2023 til stuðnings flokkun á starfsstyrkjunum. Hann hafi þó að mati kæranda takmarkað gildi. Þessi tiltekni úrskurður fjalli um óskylt álitaefni, nánar tiltekið um réttmæti þess að draga ákveðinn kostnað frá námsstyrk. En svo sem í framhjáhlaupi hafi nefndin vitnað til þeirra skoðunar ríkisskattstjóra, ,,að styrkir til náms, rannsókna og vísindastarfa væru skattskyldar tekjur, sbr. 2. tölul. A-liðar 7. greinar laga nr. 90/2003.“ Ekki virðist vera um formlegan úrskurð hans um þetta efni að ræða. Í raun sé einungis verið að árétta að styrkir af þessu tagi séu tekjuskattskyldir. Heimfærslan til 2. tölul. A-liðar skipti litlu máli fyrir hagsmuni viðkomandi kæranda. Þetta virðast kæranda því ekki vera nægilega veigamikil rök fyrir íþyngjandi ákvörðun Tryggingastofnunar varðandi lífeyrisréttindi kæranda.

Af ofangreindum ástæðum kærandi haldi kærandi enn fast við þá kröfu að Tryggingastofnun falli frá þeim hluta endurgreiðslukröfu sinnar sem sé byggð á starfsstyrknum frá B.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2022.

Um útreikning ellilífeyris hafi verið fjallað í III. kafla þágildandi laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar sé kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun skuli standa að útreikningi bóta.

Samkvæmt þágildandi 16. gr. laga um almannatryggingar hafi Tryggingastofnun borið að líta til tekna við útreikning bóta, meðal annars ellilífeyris, sbr. 33. gr. núgildandi laga um almannatryggingar. Í 2. mgr. ákvæðisins hafi sagt að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teldust tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum, sbr. 30. gr. núgildandi laga um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. þágildandi laga um almannatryggingar skyldi ellilífeyrir lækka um tiltekið hlutfall af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn félli niður. Í 2. málsl. málsgreinarinnar hafi síðan sagt að ellilífeyrisþegar skyldu hafa sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna.

Í 9. tölul. 2. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi sagt að til atvinnutekna í skilningi laganna teldist endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu samkvæmt 1. tölul. A-liðar og B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt sem og greiðslur sem komi í stað slíks endurgjalds.

Í 5. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi sagt að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skyldi leggja 1/12 af áætluðum tekjum greiðsluþegans á bótagreiðsluárinu. Þá hafi sagt að áætlun um tekjuupplýsingar skyldi byggjast meðal annars á nýjustu upplýsingum frá greiðsluþega, sbr. 39. gr. laganna þar sem sagt hafi verið að greiðsluþega væri skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem gætu haft áhrif á bætur eða greiðslur.

Í 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, þá skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 34. gr. laga um almannatryggingar. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi þegið ellilífeyri frá Tryggingastofnun allt árið 2022.

Í upphafi árs 2022 hafi Tryggingastofnun áætlað að lífeyrissjóðstekjur kæranda á árinu yrðu 382.136 kr. og fjármagnstekjur 1.500 kr. Kærandi hafi fengið greiddar tekjutengdar greiðslur á grundvelli þeirrar tekjuáætlunar allt árið 2022.

Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur kæranda hérlendis og erlendis á árinu 2022 hafi legið fyrir hafi komið í ljós að kærandi hefði í raun haft 167.751 kr. í innlendar lífeyrissjóðstekjur, 590.954 kr. í erlendar lífeyrissjóðstekjur, 472.430 kr. í [aðrar tekjur] og 13.036 kr. í fjármagnstekjur á árinu 2022. Samkvæmt því hafi tekjur kæranda verið vanáætlaðar á áðurnefndri tekjuáætlun og hafi kærandi því fengið 295.413 kr. ofgreiddar tekjutengdar greiðslur að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Kæranda hafi verið tilkynnt um niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna með bréfi, dags. 28. ágúst 2023.

Kærandi hafi andmælt þeirri niðurstöðu með tölvupósti 8. september 2023 og hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Kærandi hafi gert athugasemd við flokkun Tryggingastofnunar á starfsstyrk sem hann hafi fengið frá B […]. Kærandi hafi talið að styrkurinn hefði með réttu átt að teljast til atvinnutekna í skilningi þágildandi laga um almannatryggingar, sbr. 9. tölul. 2. gr. laganna, og skyldu sem slíkar falla undir frítekjumark atvinnutekna sem kveðið hafi verið á um í 2. málsl. 1. mgr. 23. gr. laganna. Kæranda hafi verið veittur umbeðinn rökstuðningur með bréfi, dags. 28. nóvember 2023. Fyrri útreikningur hafi staðið óbreyttur þrátt fyrir andmæli kæranda.

Óumdeilt sé í málinu að umdeildur styrkur hafi talist til tekna samkvæmt þágildandi lögum um almannatryggingar. Ágreiningur málsins lúti að því hvort umdeildur styrkur teljist vera atvinnutekjur í skilningi þágildandi laga um almannatryggingar.

Í 2. málsl. 1. mgr. 23. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi verið kveðið á um að ellilífeyrisþegar skyldu hafa sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna. Í 9. tölul. 2. gr. þágildandi laga hafi atvinnutekjur verið skilgreindar sem endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu samkvæmt 1. tölul. A-liðar og B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt sem og greiðslur sem komi í stað slíks endurgjalds. Greiðslur sem komi í stað slíks endurgjalds séu til dæmis atvinnuleysisbætur og greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði. Með öðrum orðum teljast einungis til atvinnutekna í skilningi laga um almannatryggingar þær tegundir tekna sem taldar séu upp í 1. tölul. A-liðar og B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt.

Undir 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt falli endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, án tillits til viðmiðunar, sem innt sé af hendi fyrir annan aðila. Undir B-lið 7. gr. laganna falli allar tekjur af atvinnurekstri og sjálfstæðri starfsemi. Undir 2. tölul. A-liðar 7. gr. laganna falli hins vegar tryggingabætur, meðlög og styrkir.

Styrkir til náms, rannsókna- og vísindastarfa falli undir þær skattskyldu tekjur sem taldar séu upp í 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Það hafi Yfirskattanefnd margoft staðfest í úrskurðum sínum. Kærandi telji umdeildan styrk frekar falla undir þær skattskyldu tekjur sem taldar séu upp í B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt. Umdeildur styrkur sé hins vegar skráður í tekjulið nr. 131 á skattframtali kæranda. Styrkir sem skráðir séu í tekjulið nr. 131 á skattframtali teljist vera styrkir til náms, rannsókna- og vísindastarfa og séu sem slíkir álitnir skattskyldar tekjur á grundvelli 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatts. Styrkir sem teljast skattskyldir á grundvelli B-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt séu ekki skráðir í áðurnefndan tekjulið. Skilgreining á atvinnutekjum í 9. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar taki mið af flokkun tekna samkvæmt lögum um tekjuskatt og skattyfirvöld séu úrskurðaraðili um flokkun tekna samkvæmt lögum um tekjuskatt. Tryggingastofnun sé auk þess ekki heimilt að líta fram hjá upplýsingum sem fram komi í skattframtölum greiðsluþega, sbr. 7. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar og 6. gr. reglugerðar nr. 598/2009. Þar sem styrkir til náms, rannsókna- og vísindastarfa teljast skattskyldar tekjur á grundvelli 2. tölul. A-liðar 7. gr. tekjuskattslaga geti þeir ekki talist til atvinnutekna í skilningi þágildandi laga um almannatryggingar, sbr. 9. tölul. 2. gr. laganna, og frítekjumark atvinnutekna samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 23. gr. laganna taki þar af leiðandi ekki til þeirra.

Kærð ákvörðun sé í samræmi við lög og reglur sem gildi um uppgjör og endurreikning tekjutengdra bóta. Tryggingastofnun fari því fram á að ákvörðun stofnunarinnar frá 28. ágúst 2023 um niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2022 verði staðfest fyrir nefndinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2022.

Kærandi fékk greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins allt árið 2022. Samkvæmt þágildandi 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í þágildandi 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með tilteknum undantekningum. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar skal ellilífeyrir lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. þágildandi 16. gr., uns lífeyririnn fellur niður. Þá segir að ellilífeyrisþegi skuli hafa 300.000 kr. almennt frítekjumark við útreikning ellilífeyris og 1.200.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna.

Á grundvelli 3. mgr. 33. gr. laganna ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 34. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Tillaga Tryggingastofnunar ríkisins að tekjuáætlun ársins 2022 var birt kæranda á Mínum síðum hjá stofnuninni í upphafi ársins þar sem gert var ráð fyrir 382.136 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 3.000 kr. í fjármagnstekjur. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þá áætlun og voru greiðslur kæranda á árinu greiddar út frá þessum tekjuforsendum.

Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2022 reyndust tekjur kæranda á árinu 2022 hafa verið 167.751 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 590.954 kr. í erlendar lífeyrissjóðstekjur, 472.430 kr. í aðrar tekjur og 26.072 kr. í fjármagnstekjur. Niðurstaða endurreiknings Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2022 var sú að sökum tekna hefði kærandi fengið ofgreiddar bætur samtals að fjárhæð 295.413 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi hefur verið krafinn um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.

Ágreiningur málsins varðar þann tekjulið í skattframtali kæranda þar sem fram koma upplýsingar um aðrar tekjur. Að mati kæranda á greiðsla vegna bókaskrifa sem hann fékk frá B að vera flokkuð sem launatekjur með tilheyrandi frítekjumarki en ekki sem „aðrar tekjur“ án frítekjumarks. Atvinnutekjur eru skilgreindar í 9. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar sem endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu samkvæmt 1. tölul. A-liðar og B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt sem og greiðslur sem komi í stað slíks endurgjalds. Sem slíkar njóta þær 1.200.000 kr. frítekjumarks samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar.

Skilgreining á skattskyldum tekjum er að finna í 7. gr. tekjuskattslaga og er þeim skipt í þrjá meginflokka, þ.e. A, B og C. Í 1. tölul. A-liðar 7. gr. tekjuskattslaga eru meðal annars tilgreindar atvinnutekjur og aðrar sambærilegar eða tengdar tekjur. Í 2. tölul. A-liðar 7. gr. sömu laga er talið upp tryggingabætur, meðlög og styrkir, skaðabætur og vátryggingafé vegna sjúkdóms, slysa, atvinnutaps eða launamissis og hvers konar skaðabætur og vátryggingabætur.

Styrkur sá sem kærandi fékk á árinu 2022 flokkast á skattframtali sem tekjur sem falla undir 2. tölul. A-liðar laga um tekjuskatt og nýtur því ekki 1.200.000 kr. frítekjumarks sem getið er um í 3. málsl. 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar, en þar er eingöngu vísað til 1. tölul. A-liðar og B-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt sem og greiðslna sem koma í stað slíks endurgjalds. Úrskurðarnefnd telur þó rétt að benda kæranda á telji hann að flokkun á tekjum hans sé röng í skattframtali geti hann kannað hjá Skattinum hvort hægt sé að fá framtalinu breytt. Að þessu virtu fellst úrskurðarnefnd velferðarmála ekki á kröfu kæranda um að tekjur frá B skerði ekki tekjutengd bótaréttindi frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2022.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um meðhöndlun greiðslu frá B við endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2022.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur einnig rétt benda kæranda á að hann getur freistað þess að leggja fram beiðni um niðurfellingu ofgreiddra bóta til Tryggingastofnunar á grundvelli undanþáguákvæðis 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Þar kemur fram að heimilt sé að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Þá skuli einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna greiðsluþega og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2022, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


 [GS1]hafa !!


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum